Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur birt drög að nýrri reglugerð um heimagistingu sem tekur til gildi 1. janúar 2017, og nær því til þeirra fjölda íbúða sem leigðar eru út í gegnum deilisíður eins og Airbnb og fleiri.

Þar verður nánar kveðið um skilyrði heimagistingar, svo sem framkvæmd skráningarskyldu, þær upplýsingar sem veita skal og þær kröfur sem gerðar eru til notkunar úthlutaðs skráningarnúmers. Óskar ráðuneytið eftir umsóknum um drögin fyrir 15. nóvember á netfangið [email protected]

Hámarksútleiga 90 dagar

Kemur þar meðal annars fram að einungis sé heimilt að leigja út lögheimili einstaklings eða eina aðra fasteign sem hann hefur til persónulegra nota og er í hans eigu. Ekki sé skilyrði að viðkomandi sé einnig þinglýstur eigandi ef um er að ræða lögheimili einstaklings.

Jafnframt er sett hámarksútleiga á báðar eignirnar sem nemur 90 dögum samanlagt, eða þar til samanlagðar tekjur af leigu eignanna nái 1 milljón króna.

Vatnsglas í hverju herbergi

Einnig eru settar alls kyns reglur um fjölda gesta á baðherbergi, aðstöðu til að hengja upp föt, um ruslakörfur í herbergjum og baðaðstöðu og forgang gesta að henni. Jafnvel er tekið fram að í hverju gistiherbergi í heimagistingu skuli vera vatnsglas.

Kveðið er á um að skrá þurfi heimagistinguna á sérhverju almannaksári, hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu sem jafnframt hafi eftirlit með heimagistingunni. Embættið hafi jafnframt heimild til að synja leyfi um skráningu og afskrá leyfi ef brjóti gegn ákvæðum um heimagistinguna.

Fylgst með að skráningarnúmer sé notað við markaðssetningu

Þar þurfi hann að leggja fram staðfestingu um að húsnæðið uppfylli skilyrði um brunavarnir, um hollustuhætti og mengunarvarnir, að starfsleyfi heilbrigðisnefndar sé til staðar og svo framvegis.

Sýslumannsembættið á svo að fylgjast með þeim miðlum þar sem heimagisting er auglýst og að notað sé úthlutað skráningarnúmer í markaðssetningu heimagistingar.

Getur embættið farið fram á að lögregla heimsæki heimili til að hafa eftirlit með þeim, svo sem til að sannreyna hvort útleiga í formi heimagistingar sé starfrækt þar, að lögregla geti látið vita að heimild til útleigu sé ekki til staðar og að leggja stjórnvaldssektir á hvern þann sem reki heimagistingu án skráningar eða auglýsi heimagistingu án notkunar skráningarnúmers.