*

mánudagur, 22. apríl 2019
Innlent 7. júní 2018 08:37

Skipafélögin sögð hafa átt samráð

Eimskip og Samskip eru sögð hafa komið á „neyðarsamkomulagi“ og „frið og ró“ á samkeppnismarkaði.

Ritstjórn
Skip Eimskipafélagsins við Ísafjarðarhöfn
Haraldur Guðjónsson

Eimskipafélaginu hefur borist andmælaskjal frá Samkeppniseftirlitinu vegna rannsóknar á mögulegu samráði félagsins við Samskip frá árinu 2013 sem Viðskiptablaðið hefur greint ítarlega frá.

Frumniðurstaða þess er að skipafélögin hafi haft með sér ólögmætt samráð á rannsóknartímabili málsins sem eru árin 2008 til 2013. Þannig hafi félögin brotið gegn 10. grein samkeppnislaga og 53. grein EES samningins að mati stofnunarinnar.

Kallað neyðarsamkomulag

Þó þetta sé hið afmarkaða rannsóknartímabil þá er það einnig frummat eftirlitsins að félögin hafi haft með sér samráð í áætlunarsiglingum til og frá Evrópu frá árinu 2001, kallað neyðarsamkomulag, og á árabilinu 2004 til 2009 til og frá Norður-Ameríku.

Eimskip sem eigandi TVG Zimsen og Samskip sem eigandi Landflutninga og Jónar Transport hafi jafnframt haft samráð um landflutninga frá árinu 2005 og frá 2007 um skipaafgreiðslu á Reyðarfirði.

Samkeppniseftirlitið stefnir þó að því að senda viðbótar andmælaskjal við fyrsta tækifæri, en þar verða hugsanleg viðurlög og mögulega þörf á fyrirmælum til félaganna byggt á 16. grein samkeppnislaga.

Í andmælaskjalinu eru félögin sögð hafa haft samráð með eftirfarandi aðgerðum:

  • Samráði um að takmarka flutningaframboð félaganna
  • Skiptingu á mörkuðum eftir viðskipavinum
  • Skiptingu á mörkuðum eftir landssvæðum á Íslandi
  • Verðsamráði
  • Upplýsingagjöf um mikilvæg viðskiptamálefni

Félögunum er gefið að sök að hafa frá júní 2008 haft samráð við breytingar á siglingakerfum og á flutningsleiðum til að draga úr framboði svo félögin geti viðhaldið eða hækkað verð til viðskiptavina.

Komið á „frið og ró“

Loks hafi félögin komið á svokölluðum frið og ró, þar sem félögin hafi ákveðið að reyna ekki að ná til sín viðskiptum mikilvægra viðskiptavina hvors annars. 

Jafnframt er því haldið fram að félögin hafi auk þess að skiptast á upplýsingum og verið með beint verðsamráð sín á milli hafi þau einnig verið í samráði við erlend fyrirtæki.

Þáttur einstaklinga í hinum ætluðu brotum sætir rannsókn lögreglu.

Hér má lesa frekari fréttir af málefnum skipafélaganna:

 

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim