*

miðvikudagur, 16. janúar 2019
Innlent 14. júní 2018 10:27

Skipar starfshóp um úthlutun tollkvóta

Þessi starfshópur er skipaður vegna tollasamninga Íslands og Evrópusambandsins.

Ritstjórn
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Haraldur Guðjónsson

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur skipað fimm manna starfshóp um endurskoðun á regluverki um úthlutun tollkvóta. Þessi starfshópur er skipaður vegna tollasamninga Íslands og Evrópusambandsins sem tóku gildi 1. maí síðastliðinn, en samkvæmt þeim þá stækka tollkvótar umtalsvert, sérstaklega á kjöti og ostum. Innflutningur innan þessara tollkvóta er tollfrjáls og verður aukin í skrefum til ársins 2021. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

Starfshópurinn mun hafa það hlutverk að endurskoða núverandi fyrirkomulag um úthlutun tollkvóta og finna leiðir til þess að koma þeim ávinning sem skapast með þessum takmörkuðu gæðum í meira mæli til neytenda í formi lægra vöruverðs.

Starfshópurinn á að ljúka störfum ekki síðar en 1. nóvember á þessu ári. Þá skilar hópurinn skýrslu til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Skipun starfshópsins er eftirfarandi:

  • Óli Björn Kárason, alþingismaður, formaður
  • Arnar Freyr Einarsson, hagfræðingur í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu
  • Brynhildur Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna
  • Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur hjá Bændasamtökum Íslands
  • Tryggvi Másson, sérfræðingur á efnahagssviði Samtaka atvinnulífsins

“Tollasamningar Íslands og Evrópusambandsins sem tóku gildi 1. maí sl. fela í sér umtalsverða stækkun tollkvóta sem koma til framkvæmda á næstu árum. Því er mikilvægt að staldra við og endurskoða það hvernig við úthlutum þessum takmörkuðu gæðum. Í mínum huga er grundvallaratriði að mögulegar breytingar skili sér með sem bestum hætti til neytenda í formi lægra vöruverðs og aukins vöruúrvals” er haft eftir Kristjáni Þór Júlíussyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í tilkynningunni.