Áform HB Granda um að hætta landvinnslu á Akranesi hafa orðið til þess að viss ákvæði laga um stjórn fiskveiða eru til skoðunar innan stjórnkerfisins, að því er segir í Fréttablaðinu . Þar segir að undir sé fyrsta grein fiskveiðistjórnunarlaganna, en þar segir meðal annars að lögin eigi að tryggja trausta atvinnu og byggð í landinu.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, staðfestir að þetta samtal eigi sér stað þessa dagana.

Þorgerður segir afar mikilvægt að sjávarútvegurinn fái að blómstra áfram, en taka verði tillit til samfélagslegra sjónarmiða um leið. Það jafnvægi sé á ábyrgð stjórnmálanna en líka þeirra sem reka fyrirtækin.

„Ég mun á næstunni skipa þverpólitíska nefnd sem á að finna fyrirkomulag varðandi gjaldtöku í sjávarútvegi. Það er ekkert óeðlilegt að þessi nefnd horfi til þessara sjónarmiða einnig,“ segir Þorgerður.