Þrír yfirmenn á sjóræningjaskipinu Thunder hafa verið dæmdir í allt að þriggja ára fangelsi af dómstól í eyríkinu Sao Tome og Principe í Vestur-Afríku. Auk þess voru þeir dæmdir til greiðslu hárra fjársekta. Dóminn hlutu þeir fyrir skjalafals, umhverfisspjöll og óforsvaranlega skipstjórn. Þetta kemur fram á vef norska blaðsins Dagens næringsliv.

Togarinn Thunder sökk í apríl síðastliðnum eftir ævintýralegan eltingarleik Sea Shepherd samtakanna. Forsaga málsins er sú að veturinn 2013 hóf Interpol sérstakt átak gegn ólöglegum fiskveiðum. Talið er að verðmæti fisks sem veiddur er ólöglega í heiminum nemi árlega sem samsvarar 2,5 þúsund milljörðum íslenskra króna.

Tvö skip voru brátt eftirlýst, Viking og Thunder, en eignarhaldið á þeim var rakið til Galisíu á Spáni. Þess má geta að Thunder var smíðaður í Noregi ári 1969 og hefur togarinn verið frá árinu 2006 á svörtum lista yfir skip sem stunda ólöglegar veiðar.

Skip Sea Shepherd hafa elst við sjóræningjaskip sem veiða tannfisk í Suðurhöfum. Athyglinni var fljótt beint að Thunder og var togaranum fylgt fast eftir í tæpa fjóra mánuði þar til hann sökk í Gínueuflóanum fyrir utan Sao Tome. Thunder maraði fyrst í hálfu kafi og fóru menn frá Sea Shepherd  um borð og náðu að afla sannana um ólöglegar fiskveiðar skipsins áður en það hvarf í hafdjúpin. Þá sáu þeir einnig greinileg ummerki um það að togaranum hefði verið sökkt viljandi. Skipstjórinn hélt því hins vegar fram við réttarhöldin að skipið hefði sokkið eftir árekstur við flutningaskip.

Fimmtíu manna áhöfn skipsins var flutt til Sao Tome og fengu allir að fara til síns heima nema skipstjórinn, vélstjóri og vélavörður. Þeir voru ákærðir og biðu dóms sem féll í síðustu viku. Þeir voru allir dæmdir í fangelsi. Skipstjórinn hlaut þriggja ára dóm en hinir tveir fengu aðeins vægari refsingu. Að auki voru hinir ákærðu dæmdir til að greiða Sao Tome og Principe 15 milljónir evra (um 2,1 milljarð ISK) í bætur vegna mengunar og umhverfisspjalla.