Á hluthafafundi fagfjárfestasjóðsins Arev NII 26. maí síðastliðinn var samþykkt að skipta um ábyrgðaraðila og þar með stjórn sjóðsins. Stjórnarformaður nýs ábyrgðaraðila er Gunnar Sturluson hrl. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá sjóðnum.

Í kjölfarið rifti stjórnin samningi við Arev verðbréfafyrirtæki hf. um eignastýringu sjóðsins. Í tilkynningunni segir að komið hafi í ljós alvarlegar misfellur í rekstri Arev NII og var LOGOS lögmannsþjónustu falið að tilkynna um þær til Fjármálaeftirlitsins.

Hluthafar Arev NII eru fimmtán og þar af ellefu lífeyrissjóðir. Sjóðurinn starfar samkvæmt lögum um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði.

Hluthafar skuldbundu sig til að leggja sjóðnum til hlutafé sem kallað var eftir jafnóðum og fjárfest var samkvæmt ráðgjöf Arev verðbréfafyrirtækis. Nafnverð hlutafjár í byrjun desember 2015 átti að vera tæplega 660 milljónir króna.