NIðurstaða nýlegrar Gallup könnunar sýnir að skiptar skoðanir eru meðal landsmanna um þá ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar að gefa kost á sér til endurkjörs í embætti forseta Íslands.

Samkvæmt henni er svipað hlutfall svarenda ánægt (44%) og óánægt (43%) með ákvörðun forsetans en flestir hafa sterka skoðun á henni. Þannig eru ríflega 34% mjög eða alfarið ánægð með ákvörðun Ólafs og rúmlega 32% mjög eða alfarið óánægð.

Meiri ánægja á landsbyggðinni

Meiri ánægja er með ákvörðun forsetans meðal íbúa landsbyggðarinnar en höfuðborgarsvæðisins en einnig er munur á viðhorfi fólks eftir tekjum og menntun.

Fólk er almennt ánægðara með ákvörðun forsetans eftir því sem það hefur lægri fjölskyldutekjur, fyrir utan fólk með allra hæstu tekjurnar sem er aftur álíka ánægt og fólk með lægstu tekjurnar. Þeir sem hafa lokið háskólaprófi eru óánægðari með ákvörðun forsetans en þeir sem hafa minni menntun að baki.

MIkill munur á viðorfi eftir stjórnmálaskoðun

Könnunin sýnir jafnframt að mikill munur er á viðhorfi fólks eftir því hvar það stendur í stjórnmálum.

Þeir sem kysu ríkisstjórnarflokkana ef kosið yrði til Alþingis nú, og sérstaklega þeir sem kysu Framsóknarflokkinn, eru ánægðari með ákvörðun Ólafs en þeir sem kysu aðra flokka.

Þeir sem styðja ríkisstjórnina eru að sama skapi ánægðari með ákvörðunina en þeir sem styðja hana ekki. Af þeim sem kusu Ólaf í síðustu forsetakosningum eru 75% ánægð með ákvörðun hans um að gefa kost á sér aftur en mun færri meðal þeirra sem kusu aðra frambjóðendur síðast eða kusu ekki.