Þrotabú Pressunnar hefur höfðað fjögur dómsmál þar sem greiðslum úr Pressunni verði rift. Eitt málanna er gegn Birni Inga Hrafnssyni, fyrrverandi útgefanda Pressunnar, annað mál er vegna kaupa Pressunnar á Birtíngi, sem var rift. Þriðja málið er gegn tollstjóra og það fjórða snýr að erlendu félagi sem gert var upp við eftir að gjaldþrotabeiðni var lögð fram að sögn Kristjáns B. Thorlacius, skiptastjóra Pressunnar. Hann segir að um talsverðar fjárhæðir séu að ræða í málunum fjórum.

Pressan var lýst gjaldþrota í desember 2017 en lýstar kröfur námu 315 milljónum króna. Þá námu lýstar kröfur í DV ehf,, sem var í eigu Pressunnar, 235 milljónum króna.

Vill 30 milljónir vegna Birtíngs

Pressan hafði vaxið töluvert áður en félagið fór í þrot. Pressan rak vefmiðlana Pressuna, Eyjuna, Bleikt.is, 433.is og dagblaðið DV, sjónvarpsstöðina ÍNN, auk þess sem félagið gaf út 12 staðarblöð sem félagið keypti af útgáfufélaginu Fótspori ehf. og Þá gekk félagið frá samkomulagi um kaup á Birtíngi útgáfufélagi. Þeim kaupum var rift á vormánuðum ársins 2017 þar sem seljendur gáfu út að vanefndir hefðu verið við að greiða kaupverðið.

Kristján segir að Pressan hafi greitt 30 milljónir vegna kaupanna á Birtíngi en ekki fengið féð endurgreitt þegar kaupunum var rift. Ekki hafi fengist upplýst um hvað orðið hafi um féð.  Skiptastjóri hefur nú stefnt Fjárfestingafélaginu Dalnum og Aztiq fjárfestingum ehf., sem eru tengd sömu aðilum, Karli Steinari Óskarssyni, fyrrverandi hluthafa og framkvæmdastjóra Birtíngs, og SMD ehf., í eigu Hreins Loftssonar, sem var stjórnarformaður og aðaleigandi Birtíngs. Eftir að kaupunum var rift gekk Fjárfestingafélagið Dalurinn,  sem þá var í eigu Róberts Wessman, Árna Harðarsonar, Halldórs Kristmannssonar og Jóhanns G. Jóhannssonar, lykilstarfsmanna Alvogen, að kaupum á Birtíngi. Dalurinn er nú einungis í eigu Halldórs.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .