Móðurfélag Símans, Skipti, er orðað við kaup á 49,13% hlut í slóvenska fjarskiptafyrirtækinu Telekom Slovenije, sem er að 74,13% hluta í eigu slóvenska ríkisins. Þetta kemur fram í frétt Hungarian News Digest.

"Ég get staðfest að við höfum orðið okkur úti um gögn vegna einkavæðingar á Telekom Slovenia, engin ákvörðun hefur verið tekin um framhaldið af okkar hálfu og mun ég ekki tjá mig frekar um málið að svo stöddu," segir Brynjólfur Bjarnason, forstjóri Símans.

Í fréttinni segir að Turk Telekom, Telecom Italia og Magyar Telekom frá Ungverjalandi hafi einnig lýst yfir áhuga á kaupum á hlutnum, fengið málsgögn og séu nú að undirbúa tilboð sín. Tilkynnt var um sölu hlutarins í ágúst síðastliðnum, en frestur til að leggja fram tilboð rennur út 15. október. Yfirvöld þar í landi hafa neitað að tjá sig um málið þar til tilboðsfresturinn rennur út.

Í fréttinni segir að orðrómur sé um að Magyar Telekom muni bera sigur út býtum, enda njóti fyrirtækið stuðnings Deutsche Telekom og að tilboð hinna aðilanna verði ekki samkeppnisfær.