Fjármálaeftirlitið hefur skráð fyrirtækið Skiptimynt ehf., sem þjónustuveitanda viðskipta milli sýndarfjár, rafeyris og gjaldmiðla. Þetta kemur fram á heimasíðu FME .

„Fjármálaeftirlitið vekur athygli á því að aðrir aðilar hafa ekki verið skráðir sem þjónustuveitendur viðskipta milli sýndarfjár, rafeyris og gjaldmiðla. Meðal þeirra sem teljast til slíkra þjónustuveitenda eru þeir sem bjóða upp á að skipta reiðufé í sýndarfé,“ segir í tilkynningu frá stofnuninni.

Fyrirtækið Skiptimynt ehf. rekur meðal annars heimasíðuna isx.is . En ISX er fyrsti íslenski skiptimarkaðurinn sem býður viðskipti með rafmyntir líkt og Auroracoin og Bitcoin fyrir íslenskar krónur.

“ISX-skiptimarkaðurinn er hannaður með bestu öryggisstöðlum og aðferðum sem völ er á. Tilgangurinn er að verja upplýsingar notenda og öryggi undirliggjandi rafmynta, sem og annara fjármuna ásamt því að tryggja notendavænt viðmót og örugg viðskipti. Markmið ISX er að gera þessi viðskipti eins einföld og skilvirk og mögulegt er ásamt því að tryggja notendum öruggt umhverfi fyrir viðskipti,“ segir á heimasíðu ISX.