Töluverðar breytingar hafa verið gerðar á skipulagi Icelandair Group. Sölu- og markaðssvið og svið þjónustuupplifunar verða sameinuð, Tómas Ingason kemur inn í félagið og fer fyrir nýja sviðinu stafræn þróun og upplýsingatækni, og nokkrar breytingar verða á framkvæmdastjórn félagsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Birna Ósk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri þjónustuupplifunar, tekur við nýsameinuðu sviði, en Gunnar Már Sigurfinsson, fráfarandi framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs, situr áfram í framkvæmdastjórn sem framkvæmdastjóri flutningasviðs.

Tómas Ingason kemur einnig inní framkvæmdastjórn sem framkvæmdastjóri hins nýja sviðs, og þá taka Ívar S. Kristinsson, framkvæmdastjóri flotamála og leiðarkerfis, og Árni Hermannsson, framkvæmdastjóri Loftleiða Icelandic, sæti í framkvæmdastjórninni.

Magnea Þórey Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandair Hotels, sem er í söluferli, víkur á móti úr framkvæmdastjórninni.

Eftir breytingarnar skiptist starfsemi félagsins í átta svið, fjögur kjarnasvið og fjögur stoðsvið. Kjarnasviðin verða sölu- og þjónustusvið, flugrekstrarsvið, flugflutningasvið, og flugvélaleiga og ráðgjöf. Stoðsviðin verða fjármálasvið, mannauðssvið, stafræn þróun og upplýsingatækni, og flugfloti og leiðarkerfi. Framkvæmdastjórn félagsins mun samanstanda af framkvæmdastjórum þessara sviða, auk Boga Nils Bogasonar, forstjóra.

„Með þessum breytingum verður áherslan á kjarnastarfsemi félagsins, flugrekstur, enn skýrari. Við náum fram einföldun og hagkvæmni í rekstri, meðal annars á fjármálasviði og gerum félagið betur í stakk búið til að takast á við breytingar í rekstrarumhverfinu og nýta tækifæri til áframhaldandi vaxtar. Aukin áhersla á stafræna þróun, þróun flotans og leiðarkerfisins, sem og flutninga- og leiguflugstarfsemi okkar, mun styrkja samkeppnishæfni félagsins til framtíðar,“ er haft eftir Boga Nils.