Nýtt skipulag hjá N1 tekur gildi í dag eftir kaup félagsins á Festi samkvæmt tilkynningu félagsins til kauphallarinnar . Móðurfélagið fær nafnið Festi, og tvö stoðsvið, fjármálasvið og rekstrarsvið, taka til starfa.

Starfsemi félagsins fer fram í sex rekstrarfélögum. N1, Krónunni, Nóatúni, Elko, Festi fasteignum og Bakkanum vöruhóteli. Umsjón og rekstur fasteigna N1 verða í móðurfélaginu, sem mun fá nafnið Festi, sem og stoðþjónusta og þar verða tvö svið; fjármálasvið og rekstrarsvið. Eggert Þór Kristófersson er forstjóri Festi en gengið hefur verið frá ráðningu framkvæmdastjóra yfir N1, Krónunni og Elko, auk framkvæmdastjóra yfir viðskiptaþróun, rekstrarsviði og fjármálasviði.

Gréta María Grétarsdóttir er framkvæmdastjóri Krónunnar ehf. sem rekur 19 Krónu verslanir, 3 Kr verslanir, eina Nóatúns verslun og eina Kjarvals verslun. Öll innkaup á dagvöru verða í Krónunni, enda mikil þekking á markaði þar fyrir hendi. Gréta María hefur verið fjármálastjóri Festi frá 2016.

Gestur Hjaltason er framkvæmdastjóri Elko. Gestur hefur verið framkvæmdastjóri Elko frá árinu 2002 en Festi festi kaup á Elko árið 2014.  Elko rekur í dag 4 verslanir, auk vefverslunar.

Hinrik Örn Bjarnason er framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs en verður framkvæmdastjóri N1 ehf. frá næstu áramótum. N1 rekur 29 þjónustustöðvar, 11 þjónustuverkstæði, 5 fyrirtækjaverslanir, fjölda sjálfsafgreiðslustöðva og fyrirtækjaþjónustu. Innkaup á eldsneyti, olíum, dekkjum og bílatengdum vörum verða í N1. Hinrik hefur starfað sem framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs N1 frá árinu 2013.

Guðný Rósa Þorvarðardóttir er framkvæmdastjóri einstaklingssviðs N1 auk þess sem hún tekur við vöruhúsi Bakkans. Frá áramótum verður Guðný Rósa framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar og vöruhúsa hjá Festi. Guðný Rósa hefur verið framkvæmdastjóri einstaklingssviðs N1 frá árinu 2015.

Kolbeinn Finnsson er framkvæmdastjóri rekstarsviðs og Samrunastjóri (i.e integration director). Á rekstrarviði verða starfsmannamál, gæða- og öryggismál, upplýsingatækni og framkvæmdir og viðhald fasteigna. Kolbeinn hefur starfað hjá N1 og forvera félagsins, Olíufélaginu hf. frá árinu 1987. Hann tók við starfi framkvæmdastjóra starfsmannasviðs N1 árið 2007 en árið 2015 var nafni sviðsins breytt í rekstrarsvið.

Pétur Hafsteinsson er framkvæmdastjóri fjármálasviðs en á fjármálasviði verður gagnavinnsla og greiningar ásamt áhættu- og fjárstýringu. Pétur hefur starfað hjá N1 frá árinu 2007, þar af sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs frá árinu 2015.

Skrifstofa forstjóra mun bera ábyrgð stefnumótun samstæðunnar og á rekstri dótturfélaga, hlutdeildarfélaga, fasteigna og annarra fjárfestingaeigna.