Jóhann Tómas Sigurðsson og Þorgils Sigvaldason eru stofnendur íslenska sprotafyrirtækisins CrankWheel. Þeir hafa starfað hvor í sínum bransa lengi vel – Jóhann í tækni- og hugbúnaðargeiranum og Þorgils í sölumennsku.

Samskiptalausnir á örskotsstundu

CrankWheel býður upp á samskiptalausnir fyrir fyrirtæki og þjónustuaðila gagnvart viðskiptavinum sínum sem felast í því að geta sýnt skjáskot af tölvuskjá á skamman og öruggan hátt. Þá getur þjónustuaðilinn valið nákvæmlega hvað viðskiptavinurinn getur séð af skjánum.

Viljirðu sýna viðskiptavini þínum tölur eða valmöguleika af skjá en ert bara í símsambandi við hann geturðu sent viðskiptavininum stuttan hlekk gegnum smáskilaboð. Hlekkurinn gefur viðskiptavininum svo innsýn í tölvu þjónustuaðilans á innan við tíu sekúndum.

„Okkar langtímamarkmið er að símsamtöl við viðskiptavini verði jafn lífleg og skilvirk og það væri að hittast í eigin persónu,“ segir Jóhann Tómas. „Hversu oft hefurðu mætt á skrifstofu eða útibú, og það eina sem þjónustuaðilinn þarf í rauninni að gera er að snúa skjánum að þér svo þú getir valið? Við viljum að þetta verði hægt yfir símann.“

Forritunarreynsla hjá Google

Jóhann starfaði sem yfirmaður forritunar hjá tækni- og vefrisanum Google í drykklangan tíma, og vann meðal annars við að þróa Google Desktop og Toolbar, auk þess sem hann starfaði við forritun á Google Chrome, mest notaða vefvafra heims.

Að lokum starfaði hann svo við að betrumbæta sérstakt kerfi sem kallað er WebRTC. RTC stendur fyrir Real Time Communications, eða rauntímasamskipti. Sú reynsla varð mjög mikilvæg síðar meir þegar hún varð grunnurinn að CrankWheel.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .