Breski ferðaþjónusturisinn Thomas Cook er með það til skoðunar að selja flugrekstur fyrirtækisins samkvæmt heimildum The Sunday Times . Að sögn heimildarmanna blaðsins er það til umræðu að skilja flugrekstur fyrirtækisins frá ferðaskrifstofurekstrinum til þess að losa um lausafé til að greiða niður skuldir fyrirtækisins.

Samkvæmt Sunday Times er vinnan þó á frumstigi og er ekki búist við því að salan muni eiga sér stað á næstu misserum. Fyrirtækið hefur undanfarið glímt við það að þurfa að greiða niður skuldir á sama tíma það reynir að fjármagna frekari vöxt til að mæta mikilli samkeppni frá lágfargjaldaflugfélögum og bókunarsíðum á netinu. Skuldir félagsins námu 886 milljónum punda í mars á meðan hagnaður félagsins nam 12 milljónum punda en velta félagsins á síðasta ári nam um 9 milljörðum punda.

Hætta ferðum í SeaWorld

Thomas Cook greindi einnig frá því í dag að ferðaskrifstofur fyrirtækisins munu hætta að selja ferðir í dýragarða sem eru með háhyrninga í laugum. Samkvæmt fyrirtækinu eru dýraverndunarsjónarmið að baki ákvörðuninni. Garðarnir tveir sem fyrirtækið hefur hætt að selja ferðir í eru SeaWorld í Flórída og Loro Parque á Tenerife.