Clive Stacey, framkvæmdastjóri og stofnandi Discover the World, hefur ríflega 30 ára reynslu af því að selja Bretum Íslandsferðir. Hann segir breyttar aðstæður og verðhækkanir segja verulega til sín. „Við erum ekki viss hvort þetta sé vegna þess að fólk bóki síðar eða hvort ferðamenn séu að skoða aðra áfangastaði. Við fundum fyrir töluverðum samdrætti í vetur,“ segir Clive. „Eitt vakti mikla athygli þegar ég las umsögn frá hópstjóra sem fór með hóp skólabarna til Íslands,“ segir hann, en þessir hópar koma til Íslands frá Bretlandi til að kynna sér jarðfræði Íslands.

„Í umsögninni segir að það komi honum á óvart hvað kostnaðurinn við Íslandsferðir hafi aukist mikið á undanförnum tveimur árum. Ferðin núna kostaði hópinn töluvert meira en árið 2016 og fékk minna fyrir peningana,“ segir Clive og rekur að það ár hafi ferðin kostað 800 pund á mann en kostaði núna 940 pund. Þrátt fyrir það gerði hópurinn minna nú en árið 2016. „Hópstjórinn segist vita að þetta sé til komið vegna gengis en þetta myndi eftir sem áður letja hann í að bóka aftur ferð til Íslands.“ Þetta sé í fimmta sinn sem hann fer með hóp skólabarna til Íslands. Á móti gengis- og kostnaðarhækkunum vinni lægri fargjöld, sem þó dugi ekki til og hafi einnig önnur hliðaráhrif.

„Það hefur reyndar orðið lítils háttar aukning í ferðum hópa skólabarna en í hefðbundnum ferðum varð um 25% samdráttur síðasta vetur,“ segir Clive. „Staðan fram í tímann er ekki ósvipuð en bókunarmynstur hefur breyst undanfarið og fólk bókar í auknum mæli ferðir með skemmri fyrirvara,“ segir Clive og því of snemmt að spá fyrir um hvernig sumarið muni þróast. Ástæður samdráttarins geta verið margar, en Clive nefnir hærri kostnað við Íslandsferðir og að hér sé allt krökkt af ferðamönnum. „Við heyrum sérstaklega frá fólki sem ferðaðist til landsins fyrir fimm til tíu árum. Ísland er allt öðruvísi fyrir þeim í dag.“

Clive hefur á tilfinningunni að ferðamennska á Íslandi hafi vaxið „of mikið og of hratt. Gengið er augljóslega eitthvað sem ekki er hægt að ráða við en ef það væri spyrnt meira við fótum gegn óhindruðum vexti ferðamennsku á Íslandi þá gæti það gert líf ferðamanna sem heimsækja landið aðeins betra – og fyrir heimamenn. Það sem veldur okkur sérstökum áhyggjum er hvað mörgum er selt að koma til Reykjavíkur fyrir lágt verð í skamman tíma,“ segir Clive og að hótel og flugfélög keppist um að selja sæti og rúm ódýrt. „Utan Reykjavíkur er allt ótrúlega dýrt. Fólk kemur til Íslands og kemst að því að allt er ofboðslega dýrt. Það veldur vonbrigðum. Við hvetjum fólk til að fara út á landsbyggðina og upplifa íslenska náttúru og komast í snertingu við eitthvað sem er ekki hluti af fjöldaferðamennsku. Hins vegar reynist erfitt að selja þessar ferðir í samkeppni við ódýrari pakkaferðir,“ segir Clive. Fjögurra daga ferð þar sem dvalið er á landsbyggðinni gæti kostað á bilinu 500 til 600 pund en styttri ferð til Reykjavíkur kostar ekki nema 200 til 300 pund.

„Það þýðir að ferðaþjónusta á landsbyggðinni fær sífellt minna á meðan ferðamenn sem eyða litlu eru að eyðileggja markaðinn,“ segir Clive. „Fólk sem áður ferðaðist til Íslands fer núna annað.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .