Íslensk stjórnvöld hafa upp á síðkastið unnið að gerð loftferðasamnings við yfirvöld í Ísrael, þetta hefur verið staðfest af Utanríkisráðuneytinu. Því gæti verið að beint flug hefjist til Ísrael frá Íslandi. Þetta væri í fyrsta sinn sem að flogið væri beint frá Íslandi utan Evrópu og Norður-Ameríku í áætlunarflugi. Frá þessu er greint á vefmiðlinum Túrista .

Samkvæmt heimildum miðilsins hefur nú þegar verið sótt um afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli fyrir flug frá Íslandi til Tel Aviv á næsta ári. Þó segir Guðjón Arngrímsson, talsmaður Icelandair, að engin áform séu um beint flug til Ísrael. Wow air vill ekki tjá sig um nýja áfangastaði. Ekki hefur tekist að leita svara hjá El Al, þjóðarflugfélagi Ísrael.

Það sem af er af þessu ári hafa Ísraelar keypt um 21 þúsund gistinætur á íslenskum hótelum sem er aukning um 14 prósent frá sama tíma árið áður.