Í júlí síðastliðnum var greint frá því að Árvakur og 365 hf. hygðust kaupa Póstmiðstöðina ehf. Kaupverðið var ekki gefið upp og munu eignarhlutföllin koma til með að vera sú að Árvakur fari með 51% og 365 hf. fari með 49%.

Samkeppniseftirlitið hefur nú kaupin til skoðunar, en með samrunanum hyggjast samrunaaðilar sameina dreifikerfi sín fyrir dagblöð, tímarit og fjölpóst undir fyrirtækinu Póstmiðstöðinni sem þeir hyggjast reka sem dótturfélag. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

„Samkeppniseftirlitið leitar nú sjónarmiða hagsmunaaðila við tillögum samrunaaðila. Með tilkynningu þessari kallar Samkeppniseftirlitið eftir sjónarmiðum allra aðila sem telja sig eiga hagsmuna að gæta, t.d. núverandi viðskiptavina framangreindra dreifingaraðila, keppinauta fjölmiðla Árvakurs og 365 miðla og öðrum þeim sem eiga einhvers konar viðskipti á þessu sviði eða sjá á markaðnum viðskiptatækifæri. Þá er einnig kallað eftir sjónarmiðum neytenda," segir í tilkynningunni.

Árvakur er útgáfufélag Morgunblaðsins og Torg ehf. dótturfélag 365 miðla er útgáfufélag Fréttablaðsins. Um er að ræða stærstu dagblöð landsins. Póstmiðstöðin er félag sem starfar á sviði dreifingar, meðal annars dagblaða og fjölpósts. Póstmiðstöðin er dreifingaraðili Fréttablaðsins og annarra miðla. Landsprent ehf. er dótturfélag Árvakurs og hefur meðal annars sinnt dreifingu Morgunblaðsins og annarra miðla.