Lögmenn málsóknarfélags sem heldur utan um hópmálsókn hluthafa í gamla Landsbankanum á hendur Björgólfi Thor Björgólfssyni skoða um þessar mundir næstu skref málsins, þetta kemur fram á vef ruv.is í dag. Málinu var vísað frá Héraðsdómi Reykjavíkur og Hæstiréttur staðfesti þann úrskurð í byrjun mánaðarins.

Í tilkynningu lögmanna til meðlima hópsins kemur fram að þeir hafi skoðað dóm Hæstaréttar um frávísun og það sé skilningur þeirra að frávísun hafi verið á þeim forsendum að staða félagsmanna sé ekki nægilega einsleit. Hæstiréttur taldi að í bótakröfunni hafi í raun verið teflt fram þremur aðalkröfum með skírskotun til þriggja mismunandi atvika.

Lögmenn félagsins skilji dóminn á þann veg að að skipta þurfi félagsmönnum upp í hópa eftir því hvenær þeir keyptu bréf sín í bankanum. Skoðað verði hvernig best sé að vinna málið áfram og unnið að endurskoðunar á fyrirkomulagi málshöfðunar.

Björgólfur Thor var harðorður á heimasíðu sinni í kjölfarið af niðurstöðu Hæstaréttar og lýsti málsókninni sem ófrægingarleiðangri  gegn sér undir stjórn Árna Harðarsonar og Róberts Wessman. Þá sagði hann málefni sín og Landsbankans hafa verið rannsökuð í þaula af þar til bærum yfirvöldum og að ekki hafi verið talin ástæða til aðgerða í nokkru þeirra. Þar að auki hafi hann gert upp allar sínar skuldir við bankann.