Jón Ingi Sigvaldason, markaðs- og sölustjóri Landsbjargar, segir að sala flugelda um síðustu áramót hafi verið svipuð og árið 2014. Hann segir að það hafi aldrei verið eins mikil dreifing á því hvaða vöruflokkar seljast. Þetta kom fram í hádegisfréttum Bylgjunnar.

„Það kom okkur reyndar á óvart í fyrra hvað stóru kökurnar seldust mikið. Það heldur áfram, en við getum ekki sagt að eitthvað eitt hafi selst meira en annað vegna þess að fólk er að fara meira í allt saman,“ segir Jón.

Jón segir að netverslun hafi haft áhrif á söluna hjá Landsbjörgu. „Það eru ákveðnar reglur um hvenær má selja flugelda og hvenær ekki. Þær reglur virðast ekki vera yfir það sem er selt á netinu. Það kom okkur í opna skjöldu, og fleiri aðilum, að það væri leyfilegt að selja á netinu og hvað þá keyra heim eins og hefur verið gert,“ segir hann.

Aðspurður segir hann að Landsbjörg muni skoða það að mæta þessari samkeppni.  „Það er eitthvað sem verður bara rætt hjá okkur og er strax farið að ræða.“