Bandarísk stjórnvöld skoða nú möguleikann á því að veita Venesúela neyðaraðstoð, fari svo að ríkisstjórn Nicolás Maduro falli.

Embættismenn eru sagðir standa í ströngu við að undirbúa viðbrögð hvíta hússins við þeim möguleika, en óljóst er nákvæmlega hvers eðlis og í hvaða magni slík aðstoð yrði veitt.

Ef til ríkisstjórnaskipta kemur er talið líklegt að þörfin á utanaðkomandi aðstoð yrði mikil – jafngildi hundruða milljarða króna, ef marka má heimidlarmenn Financial Times – ef forða eigi enn frekara neyðarástandi en nú þegar ríkir.

Þörfin yrði mest fyrst, áður en alþjóðlegar stofnanir á borð við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn hefðu haft tíma til að skipuleggja fjárhagslega aðstoð til lengri tíma.

Yfir 50 lönd hafa nú lýst yfir stuðningi við Juan Guaidó, forseta þingsins, sem lýsti nýlega yfir vantrausti á forseta landsins, Nicolás Maduro, og sór í kjölfarið eið sem tímabundinn forseti landsins. Rússland, Kína og Tyrkland hafa hinsvegar neitað að viðurkenna Guaidó sem löglegan forseta Venesúela.