Eigendur pólska fjarskiptafélagsins Play kanna nú möguleikann á skráningu fyrirtækisins á markað í Kauphöllinni í Varsjá. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu, þar sem er meðal annars vísað til umfjöllunnar í Póllandi og heimildarmanna blaðsins.

Félögin sem fara með eignarhaldið í P4 sem á Play, eru Novator, sem er í eigu Björgólfs Thors, og Tollerton. Eignarhlutur félaganna tveggja skiptist nokkuð jafnt.

Ragnhildur Sverrisdóttir, talsmaður Novator, sagði að félögin myndu ekki tjá sig um skráningu að svo stöddu, en hún sagði að innan Novators ríkti veruleg bjartsýni á að skráning félagsins myndi takast vel til.

Viðskiptavinir Play eru 14,4 milljónir talsins og hefur félagið 26% markaðshlutdeild á pólskum farsímamarkaði. Tekjur félagsins námu ríflega 6,1 milljarði pólskra slota árið 2016 en það jafngildir um 169 milljörðum króna. EBITDA Play árið 2016 var 2 milljarðar slota eða 56 milljarðar íslenskra króna.