Titill fundar Dansk-íslenska viðskiptaráðsins sem haldinn verður þann 4. febrúar næstkomandi er „Ísland - skólabókardæmi fyrir lönd í kreppu”, og fjallar um hvernig Ísland hefur jafnað sig á fjármálakreppunni sem skall á 2008.

Fundurinn verður haldinn í höfuðstöðvum danska iðnaðarráðuneytisins í Børsen í Kaupmannahöfn, þar sem gamla kauphöllin stóð fyrrum.

Fundarstjóri verður Jens Klarskov. Á fundinum munu Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og danski hagfræðingurinn Lars Christensen halda erindi, en Bjarni mun tíunda ferli Íslands út úr bankakreppunni.

Þá mun Ebbe Malte Iversen einnig flytja erindi um fjárfestingu Per Aarsleff A/S í íslenska verktakafyrirtækinu Ístak. Iversen er stjórnandi í fyrirtækinu, og mun hann fjalla um viðskiptasjónarhorn fjárfestingarinnar sem og aðstæður sem koma til með að móta framtíð fyrirtækisins.