Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata felldu tillögu Mörtu Guðjónsdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um að mötuneytið í Ráðhúsi Reykjavíkur byði upp á sama mat og fæst í mötuneytum skóla og leikskóla borgarinnar.

Sjálfstæðismenn kusu með en fulltrúar Framsóknar og flugvallarvina sátu hjá. Í greinargerð Mörtu með tillögunni segir:

„Með því að boðið verði upp á sama matseðil í Ráðhúsinu og í leik- og grunnskólum myndi borgarstjóri geta fylgst með gæðum þessara máltíða og sýnt það í verki að tryggt verði að börnunum standi ávallt til boða hollar og góðar máltíðir. Það gengur ekki upp að það gerist aftur að börnin í leikskólunum fái verri mat en fullorðna fólkið sem borðar í Ráðhúsinu.“