Í nýrri skýrslu félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands um stöðu ungs fólks með örorku- og endurhæfingarlífeyri kemur fram að skortur á hlutastörfum og sveigjanlegum störfum sé helsta hindrunin á því að fólkið geti komist aftur inn á vinnumarkaðinn.

Einnig kom fram að fordómar og skilningsleysi gagnvart öryrkjum leiði til enn frekari jaðarsetningar og að vinna þurfi gegn fordómum á vinnumarkaði í garð fólks með skerta starfsorku.

Lýsa þátttakendur því að erfitt sé að finna störf sem séu sveigjanleg og geri fólki kleift að samræma starf og fjölskyldulíf. Jafnframt var kallað eftir því að bilið milli endurhæfingar og náms eða vinnu yrði brúað.

Vilja samstarf við atvinnumarkað um aukinn sveigjanleika

„Ennfremur séu oft gerðar miklar kröfur á vinnumarkaði og lítill skilningur sýndur gagnvart veikindum fólks. Í spurningalistakönnuninni svöruðu 53% þátttakenda því til að helsta ástæða þess að þeir hafi hætt eða þurft að minnka við sig vinnu hafi verið sú að vinnan var of erfið,“ segir meðal annars í skýrslunni, en 73% þátttakenda sögðu ótta við afturför í heilsu hindra að þau tækju skrefið út í nám eða vinnu.

„Mikilvægt er að einstaklingar sem eru að jafna sig eftir veikindi hafi aðgengi að hlutastörfum eða störfum sem veita sveigjanleika þannig að einstaklingar geti aukið vinnuálag jafnt og þétt.

Ennfremur var bent á að þau störf sem fólki byðust væru láglaunastörf og því væri mjög erfitt fyrir marga að framfleyta sér á þeim, sér í lagi þá sem ættu börn.

Í því samhengi má benda á að umtalsverður hópur innan endurhæfingar eru einstæðar mæður. Þeim reynist oft erfitt að fá starf sem býður upp á sveigjanleika til að þær geti einnig sinnt heimili og börnum.“

Auka þyrfti möguleika fólks til að prófa sig áfram án fjárhagslegs óöruggis

Segir í skýrslunni að því sé mikilvægt að auka möguleika fólks í endurhæfingu til að prófa sig áfram í námi og starfi, á eigin hraða og án þess að það upplifi fjárhagslegt óöruggi.

„Viðmælendur í rýnihópum lýstu því að það að fara í vinnu eða nám fæli yfirleitt í sér tekjuskerðingu og gæti orðið til þess að fólk fengi bakreikninga sem það ætti erfitt með að borga. Þeir töldu ennfremur núverandi reglur flóknar og torvelda fólki að reyna á eigin getu á vinnumarkaði,“ segir í skýrslunni

„Fólk vildi fá tækifæri til að prófa sig áfram og fara sér hægt, þar sem það óttaðist bakslag. Mikilvægt er að reglur um framfærslu styðji við tilraunir fólks við að prófa sig áfram í vinnu eða námi.“