*

þriðjudagur, 18. desember 2018
Innlent 23. apríl 2017 09:02

Skortur á húsnæði fyrir ungt fólk

Framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins segir að verð á litlum íbúðum endurspegla þann skort sem sé á húsnæði.

Trausti Hafliðason
Birgir Ísl. Gunnarsson

Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir að tölur um verðhækkanir á litlum íbúðum í Reykjavík endurspegli þann skort sem sé á húsnæði fyrir ungt fólk.

„Það er athyglisvert að hækkanir eru mjög svipaðar á milli hverfa," segir Almar. „Verð hækkaði fyrst á vinsælustu stöðunum, eins og í miðborginni, en nú hefur þessi þróun færst í úthverfin. Ég tel að þessi þróun sé að teygja sig enn lengra. Við höfum verið að horfa á töluverðar hækkanir í bæjum sem eru í um 60 kílómetra radíus frá höfuðborgarsvæðinu, eins og í Reykjanesbæ, á Akranes og Árborgarsvæðinu.

Við höfum metið það sem svo að mikil þörf sá á litlum eignum á markaðinn. Það hafa ekki verið miklir hvatar til þess að byggja litlar íbúðir. Byggingarreglugerðir hafa til dæmis hamlað slíkri uppbyggingu. Þó búið sé að undanskilja 55 fermetra íbúðir og minni frá ströngustu kröfum reglugerðarinnar þá mætti ganga lengra. Það mætti miða við 90 fermetra íbúðir og minni. Ef það væri gert myndi það leiða til minni byggingarkostnaðar og þar af leiðandi lægra íbúðaverðs."

Almar segir að almennt skorti upplýsingar um framboð og væntanlega uppbyggingu á litlum eignum.

„Við eigum mjög lélegar mælingar yfir þetta," segir hann. „Hið opinbera þyrfti að bæta úr því það er nauðsynlegt að hafa góða yfirsýn yfir þessi mál þegar þrengja á umræðuna — ræða um litlar íbúðir og möguleika ungs fólks til að koma sér þaki yfir höfuðið."   

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.