Úrsögn Breta úr Evrópusambandinu kom flestum á óvart en hefur vakið upp vonir og metnað á meðal talsmanna sjávarútvegs í Skotlandi. Þeir sjá færi á því innleiða sjálfbærar veiðar og draga úr ofveiði á fiskimiðum í kringum landið og líta til Noregs, Íslands og Færeyja sem fyrirmynda.

„Við stöndum núna frammi fyrir raunverulegu tækifæri til þess að innleiða skynsamlega stýringu og sjálfbærni í veiðum í skoskum sjávarútvegi,“ segir Bertie Armstrong, framkvæmdastjóri Samtaka skoskra útgerðarmanna, SFF.

„Mörg undanfarin ár hafa skosk stjórnvöld haldið því fram að þau hafi verið nauðbeygð til þess að fylgja sameiginlegri fiskveiðistefnu ESB. Nú höfum við loks tækifæri til þess að koma á skynsamlegri stýringu og sjálfbærni í veiðum innan okkar lögsögu alveg eins og Norðmenn, Íslendingar og Færeyingar hafa gert.“

Hann segir að sjávarútvegur í Skotlandi eigi ekki samleið með þeirri stefnu sem skosk stjórnvöld virðast hafa tekið sem felist í því að Skotland verði  áfram innan Evrópusambandsins þrátt fyrir útgöngu Bretlands.

„Það má ekki gleymast að allur sjávarútvegsgeirinn í Skotlandi, sem byggir afkomu sína á sjálfbærum veiðum á einhverjum bestu fiskimiðum í heimi, er engan veginn með sömu afstöðu í þessu máli.“