Útboð og skráning Arion banka, sem átti að fara fram síðar á þessu ári, mun frestast vegna stjórnarslita og boðaðra kosninga til Alþingis í lok næsta mánaðar. Kaupþing hyggst losa hlut 58 prósenta hlut sinn í bankanum í gegnum opið hlutafjárútboð á fyrsta ársfjórðungi ársins 2018 að því er kemur fram í frétt Markaðarins , fylgirits Fréttablaðsins um viðskipta- og efnahagsmál. Það yrði því ekki gert fyrr en að ný ríkisstjórn tæki við.

Meðal þess  sem hefur staðið í veg fyrir skráningu Arion banka er sú sviðsmynd að stjórnvöld komi mögulega til með að nýta sér forkaupsrétt sinn að hlut í bankanum ef hann yrði seldur á genginu 0,8 eða lægra miðað við eigið fé. Samkvæmt heimildum Markaðarins, hafa fulltrúar Kaupþings, eigenda Arion banka, fundað með leiðtogum ríkisstjórnarinnar og embættismönnum í Seðlabanka Íslands og fjármálaráðuneytinu til þess að ná samkomulagi um endurskoðun ákvæðisins um forkaupsrétt ríkisins. Sú vinna er þó ekki langt komin.

Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, sagði í samtali við Markaðinn, að hún hafi farið þess á leit við Óla Björn Kárason, formann efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, að sú starfsstjórn sem kæmi til með að taka neina ákvörðun um endurskoðun á ákvæðinu um forkaupsrétt ríkisins að Arion banka. Hún sagði það útilokað að stjórnvöld geti fallið frá forkaupsrétti sínum að Arion banka við þá miklu pólitísku óvissu sem er nú uppi. Samkvæmt stöðugleikaskilyrðum sem að kröfuhafar Kaupþings samþykktu árið 2015 — er gert ráð fyrir því forkaupsréttur íslenska ríkisins sé endurskoðaður við opin hlutafjárútboð.