Steve Pappas framkvæmdastjóri Costco í Bretlandi segir að þúsundir íslenskra aðila, bæði einstaklinga og lítilla fyrirtækja, hafi nú þegar gerst meðlimir í Costco.

Til að geta verslað hjá fyrirtækinu þarf að greiða meðlimagjald í klúbbi viðskiptavina, sem er 4.800 krónur á ári fyrir einstaklinga og 3.800 fyrir fyrirtæki. Aðgangurinn veitir aðild að öllum 725 vöruhúsum fyrirtækisins út um allan heim.

Segir hann að undirbúningur væntanlegrar opnunar hér á landi gangi samkvæmt áætlun að því er fram kemur á mbl.is , en tímabundin skrifstofa fyrirtækisins hefur þegar verið sett upp á bílastæði væntanlegs vöruhúss í Kauptúni í Garðabæ.

Segir hann að áhugasamir geti komið þar við og kynnt sér verslunina, sem verður 14 þúsund fermetrar að stærð, ásamt því að skrá sig, en stefnt er að opnun verslunarinnar í lok maí. Nánari dagsetning verður kynnt á næstu vikum, en nú standa ráðningar yfir sem ganga að því er haft er eftir honum vel.