Fresta þarf skráningu hlutafjár Straums í evrum í óákveðinn tíma í kjölfar þess að Seðlabankinn lagði fram bréf með athugasemdum varðandi tilhögunina.

Undanfarna mánuði hefur staðið yfir undirbúningur að því að hefja viðskipti á hlutum Straums-Burðaráss Fjárfestingabanka (Straums) í evrum og ferlið auglýst í Lögbirtingablaði og dagblöðum. Fyrstu viðskipti með hluti í evrum voru fyrirhuguð 20. september  og skráning í kerfi Verðbréfaskráningar var ákveðin að morgni mánudagsins 24. september, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

Að undirbúningi hafa komið Straumur, Verðbréfaskráning Íslands, Kauphöllin og Landsbankinn en jafnframt hefur verið haft samráð við Fjármálaeftirlitið. Til stóð að Landsbankinn annaðist greiðsluuppgjör viðskipta tímabundið eða þar til búið væri að semja við Seðlabanka Finnlands um að hann tæki að sér það hlutverk.

Föstudaginn 14. september barst Verðbréfaskráningu bréf frá Seðlabankanum þar sem fram koma athugasemdir við fyrirhugaða tilhögun á verðbréfauppgjöri í evrum. Því hafa Straumur, Verðbréfaskráning Íslands og Kauphöllin tekið þá sameiginlegu ákvörðun að fresta fyrirhuguðum breytingum þar til búið er að fara yfir þær athugasemdir sem Seðlabankinn setti fram í bréfi sínu.