Indra Nooyi, forstjóri PepsiCo, skrifar stundum bréf til foreldra starfsmanna fyrirtækisins til að þakka þeim fyrir uppeldið. Hún skrifar nokkrar setningar um frammistöðu starfsmanns og hrósar honum. Þetta kom fram á hátíðarfundi Ölgerðinnar þar sem Nooyi hélt fyrirlestur.

Nooyi sagði á fundinum að hún hefði fengið góð viðbrögð frá foreldrum en ekki alveg jafn góð viðbrögð frá starfsmönnum. Foreldrarnir setja bréfið í sumum tilfellum í ramma og upp á vegg eða afrita það og senda vinum og fjölskyldu. Það er því vonlaust fyrir starfsmenn að reyna að baktala yfirmanninn við foreldra sína, sagði Nooyi á léttu nótunum.

Eftir 18 ára aldur fá foreldrar aldrei einkunnaspjöld um frammistöðu barnanna sinna svo þeim þykir vænt um þetta, sagði Nooyi. Hún sagðist einnig hafa gripið til þess ráðs að hringja í móður manns sem sótti um starf hjá fyrirtækinu. Hann sagði í starfsviðtali að móðir hans væri hans helsta fyrirmynd og því fannst Nooyi nauðsynlegt að heyra í henni og ræða við hana um framtíð hans.