Þráinn Hallgrímsson
Þráinn Hallgrímsson
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Þráinn Hallgrímsson , skrifstofustjóri, hefur látið af störfum hjá Eflingu-stéttarfélagi en hann hefur starfað hjá félaginu frá stofnun. Fyrr í mánuðinum tók Viðar Þorsteinsson við nýju starfi framkvæmdastjóra hjá Eflingu-stéttarfélagi.

Þó nokkrar sviptingar hafa verið hjá félaginu undanfarið, en eins og Viðskiptablaðið sagði frá í mars sigraði Sólveig Anna Jónsdóttir formannsslaginn í félaginu og vann listi hennar sigur á lista tilnefndum af fyrri stjórn og trúnaðarmannaráði félagsins.

Þráinn réð sig upphaflega hjá Verkamannafélaginu Dagsbrún vorið 1996 en Halldór Björnsson, þáverandi formaður bauð honum starf skrifstofustjóra hjá Dagsbrún og hann varð síðan skrifstofustjóri í gegnum allar sameiningar félaganna sem urðu að Eflingu-stéttarfélagi.

Frá 1983 í verkalýðsmálum

Þráinn hefur starfað að verkalýðsmálum síðan 1983 þegar honum var boðið starf hjá MFA, fræðslustofnun ASÍ á þeim tíma segir í frétt um málið á vef Eflingar. Þráinn hefur gengt allmörgum  trúnaðarstörfum í verkalýðshreyfingunni en mest hefur hann sinnt störfum fyrir ASÍ og stofnanir sambandsins hálfan fjórða áratug.

Hann réð sig fyrst sem fræðslufulltrúi MFA árið 1983 og starfaði að fræðslumálum til 1988 þegar hann tók við skrifstofustjórastarfi á Alþýðusambandinu þar sem hann vann til ársins 1992 þegar hann tók við starfi skólastjóra Tómstundaskólans sem varð Mímir Tómstundaskólinn á starfstíma hans.

Vann við fræðslustörf áður

Hann vann við fræðslustörf þar til hann tók við skrifstofustjórastöðu hjá Dagsbrún árið 1996. Hjá Eflingu-stéttarfélagi hefur Þráinn komið að fjölmörgum verkefnum og stjórnun skrifstofu Eflingar. Hann hefur tekið þátt í kjarasamningsgerð allan þann tíma sem hann hefur starfað hjá félaginu og unnið með samninganefnd Eflingar og Flóafélaganna allan þennan tíma.

Þá hefur hann verið ritstjóri Fréttablaðs Eflingar, komið að stjórnun allra helstu útgáfuverkefna félagsins og að vinnu við heimasíðu og aðra fjölmiðlun. Hann hefur unnið með stjórn og trúnaðarráði félagsins og haldið utan um starf að fundum félagsins allan starfstíma sinn.

Gríðarlegar breytingar hafa átt sér stað síðan hann var ráðinn til Dagsbrúnar en þá voru átta starfsmenn á Dagsbrún í um 5000 manna félagi. Í dag eru starfandi um 40 starfsmenn á Eflingu og um 30000 manns eru í félaginu.