Hells Angels voru fyrirferðarmiklir á svæðinu í kringum kaffihúsið sem Ágúst Fannar Einþórsson, framkvæmdastjóri Brauð og Co, rak í Kaupmannahöfn.

„Ég var að díla við eiturlyfjasala sem stóðu úti á horni hjá okkur og voru að selja. Ég þurfti bara að sætta mig við umhverfið eins og það var því ég var ekki að fara út að henda einhverjum Hellara í burtu. Ég þurfti bara að gera það besta úr stöðunni – gefa þeim kaffi og rugla í þeim og vera mannlegur. Þeir voru alltaf að fela hass á klósettinu hjá mér og þurfti að taka svolítið manneskjulega á því.

Ég fór alltaf bara beint í yfirmanninn þeirra, sem var í Hells Angels en þetta var undirhópur þeirra. Þetta voru bara litlir, ljúfir, hræddir, týndir strákar. Yfirmað­ urinn þeirra skildi alveg mína hlið. Hann var fastakúnni á kaffihúsinu og ég búinn að gera fyrir hann kaffi í tvö-þrjú ár. Eitt skiptið gerir löggan rassíu hjá þeim og hann kemur inn til okkar með stærsta seðlabúnt sem ég hef séð, lætur okkur hafa það og segir „ég sé þig á eftir.“ Þremur sekúndum síðar er löggan búin að skella honum í götuna. Við stöndum þarna með seðlana að vega og meta stöðuna og hvað við eigum að gera.Okkur fannst betra að löggan kæmi til okkar og tæki það af okkur frekar en að fara og láta lögguna hafa það,“ segir Gústi og hlær.

„Löggan mun frekar skilja stöðu mála en „kórdrengirnir“. Þannig að við biðum bara spakir og svo kom hann sama dag eða daginn eftir og sótti þetta. Þá var mér og Nikka sem vann með mér boðið í Hells Angels partý en ég þorði ekki að fara. Ég sé ennþá eftir því í dag. Það er einhver hluti af mér sem finnst þetta smá spennandi en á sama tíma sorglegt og bara mörgum forvitnisspurningum sem hefði verið svarað. Þá var nýbúið að skjóta af bazooku inn í klúbbhús Banditos svo ég þorði ekki ef þeir færu að borga til baka.“

Enginn labbandi með hundinn sinn

Ágúst er mikill aðdáandi notalegra og gróinna hverfa. „Það kaupa allir brauð og ég sé ekki af hverju það ætti að vera neikvætt að við verðum á fleiri en einum stað í Reykjavík. Það verða margir þakklátir fyrir að fá þetta í hverfin sín,“ segir Gústi.

„Ég er til dæmis rosa spenntur fyrir að opna í Vesturbænum. Ég held að það verði mjög gaman. Vesturbærinn er mikið hverfi og þar er fílingur. Ég upplifi líka sömu hverfistilfinningu í Þingholtunum og á Nörrebro. Sums staðar í Reykjavík ertu bara á bílastæði, verslunarkjarna þar sem enginn kemur labbandi með hundinn sinn og allir keyra, enginn mætir neinum og enginn hittir neinn.

Það er enginn fílingur, bara inn og út. Þetta er svolítið vandamálið við Reykjavík – við byggjum hana til að keyra um allt. Sum hverfi eru þannig að það er ekki hægt að opna verslun í hverfunum því það var ekki hugsað fyrir því. Menn hugsuðu bara að Smáralindin væri við hliðina á hverfunum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .