Í morgun var skuld flugvélarinnar sem hefur verið kyrrsett á Keflavíkurflugvelli frá gjaldþroti Wow air, greidd til Isavia. Er Isavia gefinn frestur til klukkan 14 í dag til að láta vélina af hendi. Mbl.is greinir frá þessu.

Eigandi vélarinnar er flugvélaleigan ALC og hafa lögmenn félagsins greitt skuldina, en mbl.is kveðst hafa kvittanir þess efnis undir höndum. Annars vegar hafi verið greitt með íslenskum krónum, rúmlega 55 milljónir króna og hins vegar tæplega 230 þúsund evrum, sem nemur rúmlega 31 milljón íslenskra króna. Greiðslan nemur því samtals 87 milljónum króna, en samkvæmt útreikningum lögmanna flugvélaleigunnar er það heildarupphæð skuldar þessarar tilteknu vélar við ríkisfyrirtækið Isavia.

Í síðustu viku úrskurðaði Héraðsdómur Reykjaness að Isavia væri heimilt að kyrrsetja vélina. Hins vegar væri einungis heimilt að kyrrsetja vélina vegna skulda sem tengdust vélinni sjálfri en ekki öllum skuldum Wow air við Isavia. Heildarskuld Wow air við Isavia nemur 2 milljörðum króna.

„Nú er næsti leikur þeirra. Annars leitum við atbeina dómstóla á ný,“ sagði Oddur Ástráðsson, lögmaður ALC, í samtali við mbl.is.