Halli varð á rekstri Mosfellsbæjar upp á 26 milljónir króna á síðasta ári. Þetta er betri afkoma en búist var við en reiknað hafði verið með 40 milljóna króna meiri halla. Fjármagnsliðir setja skarð í afkomu bæjarfélagsins. Að þeim undanskildum nam afgangurinn 560 milljónum króna. Þá kemur fram í uppgjöri bæjarins að skuldahlutfall hafi lækkað úr 179% árið 2010  í 148% í fyrra. Þar með er það komið niður fyrir þau 150% mörk sem ný sveitarstjórnarlög setja sveitarfélögum.

Ársreikningur Mosfellsbæjar var lagður fram í bæjarráði í dag og honum vísað til fyrri umræðu í bæjarstjórn.

Í tilkynningu frá bænum kemur fram að tekjur hafi verið meiri en fjárhagsáætlun hafi gert ráð fyrir. Hins vegar hafi aukin verðbólga valdið því að verðbætur hafi verið mun hærri en gert hafi verið ráð fyrir.

Veltufé frá rekstri Mosfellsbæjar nam 677 milljónum króna í fyrra, sem er 12% af rekstrartekjum og 15% framlegð frá rekstri.

Eigið fé bæjarfélagsins í lok síðasta árs nam 3.663 milljónum og er það 66 milljóna króna aukning á milli ára.

Uppgjör Mosfellsbæjar