Þegar litið er í upplýsingar um eigna- og skuldastöðu einstaklinga hér á landi samkvæmt skattframtölum kemur í ljós að þróunin hefur verið áfram jákvæð, þó vísbendingar séu um að hún geti verið að snúast við. Þetta kemur í umfjöllun Landsbankans um tölur Hagstofu Íslands sem birtust í síðustu viku, en samkvæmt þeim jukust eignirnar meðan skuldirnar stóðu í stað, þegar litið er á heildartölur.

Þróunin hafi verið afar jákvæð allt frá árinu 2008, en það ár minnkuðu eignirnar mikið en allt frá árinu 1998 þangað til þá mátti sjá að eignir og skuldir jukust bæði á hverju ári, nema árið 2002 þegar litlar breytingar urðu.

Nýjustu tölurnar benda til aukinnar skuldsetningar

Á árunum 2008 og 2009 jukust skuldirnar og eignirnar minnkuðu eins og gefur að skilja í efnahagsrhuninu, en allt frá árinu 2010 hefur svo meðalskuld einstaklinga lækkað ár frá ári.

Reyndar minnkuðu skuldir minna á árinu 2016 en árin á undan, sem og að nýjar tölur benda til þess að skuldir hafi byrjað að aukast á þessu ári, „þannig að ekki er einsýnt um að þessi hagstæða þróun eignastöðu heimilanna haldi áfram,“ segir í lokaorðum Hagsjárinnar.

Meðaleignin nam 25 milljónum

Á árinu 2016 var meðaleign einstaklinga rúmar 25 milljónir en meðalskuldin 9,1 milljón, en frá árinu 2013 hafa eignirnar aukist meðan skuldirnar hafa minnkað alveg frá árinu 2010 eins og áður sagði.

„Á milli áranna 2009 og 2016 minnkaði meðaleign á föstu verðlagi um 1,4 m. kr., skuldir lækkuðu um 4,5 m. kr. og eiginfjárstaðan batnaði því um 3,1 m. kr. hjá meðaleinstaklingi,“ segir í hagsjánni. „Meginuppistaða eiginfjár einstaklinga liggur jafnan í fasteign. Á árinu 2007 fór eigið fé meðaleinstaklingsins í fasteign upp í 13,4 m. kr. á verðlagi ársins 2016.

Þessi eign féll svo niður í 7,4 m. kr. á árinu 2010, eða um 53%. Á árinu 2016 var talan svo komin upp í 12,4 m. kr., eða 90% af því sem hún var hæst.

Eigið fé í fasteignum sveiflast mikið

Sé litið á samsetningu eiginfjár má sjá að mun meiri sveiflur hafa orðið í eigin fé í fasteign en öðru eigin fé. Eigið fé í fasteign jókst um næstum 130% á milli áranna 1997 og 2007 á meðan annað eigið fé jókst um rúm 45%.

Hvort tveggja minnkaði mikið á næstu árum og náði lágmarki á árinu 2010. Frá árinu 2010 fram til 2016 jókst eigið fé í fasteign um tæp 70% á meðan annað eigið fé jókst um tæp 40%.“