Í dag stækkaði Arion banki skuldabréfaútgáfu sína frá því í desember. „Stækkunin nemur 200 milljónum evra en upphaflega útgáfan nam 300 milljónum evra,“ segir í fréttatilkynningu frá bankanum.

„Alls nemur útgáfan því í dag 500 milljónum evra eða 60 milljörðum íslenskra króna. Sem fyrr verður hluti útgáfunnar nýttur til að greiða niður eldri lán.

Skuldabréfin eru með lokagjalddaga í desember 2021, bera fasta 1,625% vexti og voru seld á kjörum sem jafngilda 1,55% álagi á millibankavexti.

Barclays og Deutsche Bank sáu um viðbótarútgáfuna fyrir hönd bankans. Tilboð bárust frá yfir 20 fjárfestum og heildareftirspurn var yfir 200 milljónir evra.“