*

þriðjudagur, 17. júlí 2018
Innlent 7. september 2017 17:38

Skuldir hafa ekki vaxið hraðar síðan 2008

Ef litið er til þróunar í heildarskuldastöðu heimilanna gagvart innlánsstofnunum og lífeyrissjóðum kemur fram að árleg aukning í skuldastöðu heimilanna, að raunvirði, hefur ekki mælst hærri frá því í lok sumars 2008.

Pétur Gunnarsson
Haraldur Guðjónsson

Ef litið er til þróunar í heildarskuldastöðu heimilanna gagnvart innlánsstofnunum og lífeyrissjóðum kemur fram að árleg aukning í skuldastöðu heimilanna, að raunvirði, hefur ekki mælst hærri frá því í lok sumars 2008. Þetta kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs. 

Þar segir að heildarskuldir heimilanna voru í lok júlí 10,7% hærri að raunvirði en á sama tíma 2016. Frá ársbyrjun 2016 hefur sá árstaktur verið nokkuð stigvaxandi með nærri samfelldri vaxtaaukningu milli mánaða. 

Mánaðarskýrsla Íbúðalánasjóðs kom út í breyttu formi frá því sem verið hefur. Fram til þessa hefur mánaðarskýrslan alfarið einblínt á eignasafn sjóðsins. Í ljósi nýs hlutverks Íbúðalánasjóðs mun mánaðarskýrslan nú og í framtíðinni einnig fjalla um stöðu húsnæðismarkaðarins hér á landi í heild sinni.

Sjóðurinn selur íbúðir

Einnig er fjallað um hvernig útlán sjóðsins hafa þróast á síðustu misserum. Þar segir að ný útlán Íbúðalánasjóðs í júlí 2017 námu 199 milljónum króna, allt almenn útlán. 

Í lok júlí 2017 átti Íbúðalánasjóður 513 íbúð. Sjóðurinn seldi 23 eignir í mánuðinum og bættust 5 nýjar íbúðir við eignasafnið. Til viðbótar þeim eignum sem seldar voru í mánuðinum þá hefur Íbúðalánasjóður samþykkt kauptilboð í 45 eignir og vinna nú tilboðsgjafar að fjármögnun þeirra.