Ef laun og starfstengdar greiðslur fjölskyldna og einstaklinga hér á landi í fyrra eru bornar saman við árið 2009 sést að vöxtur raunlauna í landinu hefur numið 11%.

Jafnframt greiddu 72,3% þeirra, sem voru með tekjur, tekjuskatt af þeim, sem er hærra hlutfall en sést hefur í langan tíma. Viðskiptablaðið greindi frá því í gær að hlutfall þjóðarinnar sem greiddi tekjuskatt fór úr því að vera minna en 50% árið 2009 í ríflega 60% í fyrra.

Á sama tíma jukust hins vegar skuldir vegna íbúðarhúsnæðis í fyrsta skipti frá hruni, en aukningin nam 28,9 milljörðum á síðasta ári að því er Morgunblaðið segir frá upp úr úttekt Páls Kolbeins rekstrarhagfræðings í Tíund, blaði Ríkisskattstjóra.

„Það er ekki neinum blöðum um það að fletta að árið 2016 ríkti aftur góðæri í landinu sem minnti að mörgu leyti á ástandið sem hér skapaðist fyrir tæpum áratug, rétt áður en allt féll,“ segir í grein Páls. „Útlendingar streyma nú til landsins, tekjur hafa aukist og eignir hafa hækkað í verði.“