Eignir ýmissa lánafyrirtækja námu 1.067 milljörðum króna í lok apríl sl. sem er 622 milljón króna hækkun frá því í lok mars. Útlán og markaðsverðbréf námu 937,2 milljörðum króna þar af námu verðtryggð skuldabréf 860 milljörðum króna og hækkuðu um 5,4 milljarða á milli mánaða.

Þetta kemur fram í hagtölum Seðlabankans.

Þar kemur fram að skuldir ýmissa lánafyrirtækja námu 1.022,4 milljörðum króna og hækkuðu um tæplega 3 milljarða króna í lok apríl. Eigið fé nam 44 milljörðum króna

Tekið er fram að í lok mars samþykkti Fjármálaeftirlitið samruna Íslandsbanka hf. og Kreditkorts hf. og hafa félögin verið sameinuð undir nafni Íslandsbanka hf. Þar af leiðandi hafa upplýsingar um Kreditkort flust úr hagtölum ýmissa lánafyrirtækja yfir í hagtölur bankakerfisins.

Gömlu bankarnir með neikvætt eigið fé upp á 6,5 milljarða

Yfirlit yfir eignir og skuldir fjármálafyrirtækja í slitameðferð eða nauðasamningum eru birtar sérstaklega. Eignir þeirra námu 2.998 milljörðum króna í lok 2. ársfjórðungs 2011 en skuldir þeirra námu 9.552 milljörðum króna á sama tíma. Eigið fé þeirra var því neikvætt um 6.554 milljarða í lok 2. árfjórðungs 2011. Fjöldi fjármálafyrirtækja í slitameðferð eða nauðasamningaferli er breytilegur eftir tímabilum. Þegar starfsleyfi þeirra er afturkallað af FME detta viðkomandi aðilar út úr hagtölum SÍ um fjármálafyrirtæki.

Skuldabréfasjóðir hækkuðu en verbréfasjóðir lækkuðu

Þá kemur einnig fram í hagtölum bankans að eignir verðbréfasjóða námu 259,5 milljörðum króna í lok apríl og lækkuðu um 865 milljónir króna milli mánaða. Eignir fjárfestingarsjóða hækkuðu um 4,4 milljarða króna milli mánaða og námu 61,2 milljörðum króna í lok apríl.

Eignir fagfjárfestasjóða námu 235,5 milljörðum króna í lok apríl og hækkuðu um 195 milljónir króna í mánuðinum. Mestar eignir eru í skuldabréfasjóðum, eða um 75% af heildareignum sjóða. Eignir skuldabréfasjóða hækkuðu um 4 milljarða króna í lok apríl og námu 416,6 milljörðum króna

Gögnum er safnað frá 8 rekstrarfélögum og er samanlagður fjöldi sjóða 104.