Fjársýsla ríkisins birti nýlega ríkisreikning fyrir árið 2017 og er hann nú í fyrsta sinn í samræmi við ný lög um opinber fjármál. Þá er árið 2017 fyrsta árið í langan tíma þar sem einskiptis- og óreglulegir liðir hafa ekki veruleg áhrif á rekstarniðurstöðu ríkissjóðs. Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans.

Samkvæmt ríkisreikningi námu heildareignir í árslok 2017 alls 2.157 milljarðar króna., skuldir 1.661 milljarðar króna og eigið fé 496 milljörðum króna.

„Skuldastaða ríkissjóðs var orðin vel ásættanleg á árunum fyrir 2008, en á árunum þar á eftir jukust skuldir ríkisins mikið. Heildarskuldir ríkissjóðs eins og þær birtast í efnahagsreikningi voru um síðustu áramót um 1.661 milljarð króna., og höfðu lækkað um 11,2% milli ára að nafnvirði," segir í Hagsjánni.

Lækkun skulda kemur að mestu leyti til vegna lækkunar langtímaskulda um u.þ.b. 23% milli ára. Skammtímaskuldir jukust reyndar á árinu, en þar er um mun lægri upphæð að ræða. Ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar aukast um 1,3% sem er mun minna en árin á undan. Lífeyrisskuldbindingar hækkuðu um rúm 20% milli áranna 2015 og 2016 og um 17% árið þar á undan. Þessar hækkanir komu fyrst og fremst til vegna mikilla launahækkana á árunum 2015 og 2016. Vegna mikils hagvaxtar á síðustu árum hafa skuldir ríkissjóðs sem hlutfall af vergri landsframleiðslu lækkað verulega.