Meirihluti Samfylkingar, Vinstri grænna, Pírata og Bjartrar framtíðar lögðu í dag fram frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2018 og fimm ára áætlun 2018-2022 í borgarstjórn. Árið 2018 er áætlað rekstrarniðurstaða borgarsjóðs verði jákvæð um 3,4 milljarða að því er segir í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Rekstrarniðurstaða fyrir samstæðu Reykjavíkurborgar árið 2018 er áætluð um 17,2 milljarðar. Góðan afgang má einkum rekja til A-hluta, Orkuveitu Reykjavíkur og Félagsbústaða hf. vegna matsbreytinga fjárfestingaeigna félagsins. Þá er gert ráð fyrir batnandi afkomu á áætlunartímabilinu 2018 - 2022.

Tæplega milljarður á ári í Borgarlínu

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir áætlunina gera ráð fyrir sókn á öllum sviðum og nefnir hann þar allt frá skóla og velferðarmálum, til gatna, stíga og íþróttamannvirkja auk húsnæðismála. Þá er gert ráð fyrir fjármagni til Borgarlínu, alls 4,7 milljörðum á næstu fimm árum.

„[A]lls fara 69 milljarðar til húsnæðismála á næstu fimm árum í Reykjavík,“ segir Dagur en Félagsbústaðir ráðgera umtalsverða fjölgun félagslegra íbúða í eignasafni sínu á tímabilinu. „Við þetta má bæta að við erum um leið að lækka fasteignagjöld á íbúðarhúsnæði um 10% eða úr 0,2% í 0,18% ásamt sérstökum afsláttum fyrir aldraða og öryrkja.”

Góðærið ekki nýtt til að greiða niður skuldir

Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins sem situr í minnihluta segir segir fjárhagsáætlunina bera með sér að meirihlutinn hafi engin tök á fjármálum borgarinnar.

„Skuldsetning er ekki lausn á fjárhagsvanda en það virðist engu að síður vera stefna meirihlutans,“ segir Kjartan sem segir góðærið nú hafa fært sveitarfélögum landsins gífurlega hækkun tekna sem ætti að nota til að greiða niður skuldir og lækka álögur á almenning.

„Afar slæmt er að undir stjórn vinstri flokkanna hefur Reykjavíkurborg ekki notað góðærið til að greiða niður skuldir heldur hefur þvert á móti aukið þær.“

Enn á að auka á skuldirnar

Kjartan segir að samkvæmt fjárhagsáætluninni sem Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hafi nú lagt fram fyrir næsta ár eigi enn að auka á skuldirnar. „Samkvæmt frumvarpinu munu langtímaskuldir A-hluta (aðalsjóður og eignasjóður) aukast um 13% og langtímaskuldir samstæðu um 7,7% á næsta ári,“ segir Kjartan.

„Skuldir og skuldbindingar A-hluta munu hækka um 7,6% milli ára og nema um 108 milljörðum króna í lok árs 2018. Skuldir og skuldbindingar samstæðu munu hækka um 5,8% milli ára og nema um 299 milljörðum króna í lok árs 2018.“

Reykjavíkurborg nýtur tekjuþróunar, en ekki hagræðis

Halldór Halldórsson oddviti Sjálfstæðisflokksins í borginni og formaður sambands íslenskra sveitarfélaga segir sveitarfélögin finna fyrir rekstrarbata vegna aukinna tekna, nema hjá þeim sveitarfélögum sem eru tengdust sjávarútveginum, vegna styrkingar krónunnar.

„En rekstrarbatinn er líka vegna þess að mörg sveitarfélög hafa stigið stór skref í hagræðingu,“ segir Halldór sem segir Reykjavíkurborg njóta tekjuþróunarinnar.

„[E]ins og sjá má á því að A hluti fer í 117 milljarða í tekjum skv. áætlun fyrir árið 2018 úr 100 milljörðum árið 2016. Það er 16,2% hækkun tekna á tveimur árum,“ segir Halldór sem segir skuldirnar nálega tvöfaldast á sama tíma. „Skuldir og skuldbindingar A hluta fara úr 83,7 milljörðum árið 2016 í 107,6 milljarða kr. eða hækka frá árinu 2016 til 2018, standist áætlun, um 28,5%.“

Árangur Reykjavíkurborgar undir meðaltali

Halldór segir það áhyggjuefni að árangur borgarinnar sé ekki betri en þetta sýni miðað við að hagsveiflan sé nú við toppinn að margra mati.

„Reykjavíkurborg [er] ekki að ná betri árangri en 9,4% í veltufé frá rekstri þegar sveitarfélögin í landinu er að meðaltali í 12% veltufé frá rekstri og að skuldir séu að hækka á A hluta um 8 milljarða á milli áranna 2017-2018 og á samstæðu um 16,4 milljarða á milli ára,“ segir Halldór sem segir einungis lítinn hluta af þessu skýrast af hækkun lífeyrisskuldbindinga.

„[Þ]rátt fyrir mjög mikilvægt uppgjör á lífeyrismálum hjá Reykjavíkurborg rétt eins og öðrum sveitarfélögum í kjölfarið á samningum um samræmingu lífeyrisréttinda á opinberum og almennum markaði og hagstæðum samningum við ríkisvaldið vegna lífeyrissjóðsskuldbindinga þar sem ríkið kemur af miklum krafti að því að greiða upp skuldbinding