Endanleg skipting á eignarhlutum Indigo Partners og Skúla Mogensen í Wow air mun velta á því hvernig fjárhagsstaða Wow air þróast á næstu þremur árum samkvæmt tilkynningu frá Wow air. Gangi rekstur Wow air ekki sem skyldi gæti hlutur Skúla lækkað niður í 0% en hann er í dag eini hluthafi Wow air í gengum fjárfestingafélagið Títan. Í tilkynningunni segir að virði Wow air sé lægra en áður hafi verið ráðgert í viðræðum Indigo og Skúla. Þá er einnig gert ráð fyrir að ríflega 700 milljón króna lán sem Skúli hefur veitt Wow air verði afskrifað.

Vilja 50% afskriftir af skuldabréfum

Wow og Indigo hafa einnig óskað eftir nýju skriflegu ferli við skuldabréfaeigendur Wow air þar sem farið er fram á að þeir þurfi að samþykkja 50% afskrift af höfuðstól skuldabréfanna sem lækkar þá úr 60 milljónum evra í 30 milljónir evra. Einnig er farið fram á að vextir skuldabréfanna verði lækkaðir úr 9% í 7% og að lengt verði í skuldabréfinu úr þremur árum í fimm til átta ár. Farið er fram á að ábyrgðir tengdar skuldabréfunum verði felld niður auk þess að skuldabréfin verði afskráð úr sænsku kauphöllinni.

Á móti munu skuldabréfeigendur fá forgangshlutabréf til sjö ára sem hvorki fylgir réttur til arðs né atkvæðaréttur. Hlutabréfaréturinn mun virkjast ef Wow verður skráð á markað og virði félagsins verður yfir 500 milljónir evra, um 68 milljarðar króna eða Indigo Partners losar hlut sinn í Wow air með yfir 20% árlegri ávöxtun á næstu sjö árum.

Breytingar sem skuldabréfaeigendurnir höfðu áður samþykkt runnu úr gildi um síðustu mánaðamót. Í nýju skilmálunum segir að þeir muni falla úr gildi verði ekki gengið frá fjárfesting Indigo í Wow air fyrir 29. apríl næstkomandi en félögin höfðu áður gefið út að þau hyggðust ljúka fjárfestingunni fyrir 29. mars. Skuldabréfeigendurnir geta greitt atkvæði um breytingarnar fram til 5. apríl næstkomandi.

Í bréfi til skuldabréfaeigendanna segir að fjárhagsstaða Wow air hafi verið þröng í vetur. Eldsneytisverð hafi hækkað og samkeppni í fluggeiranum sé hörð. Gjaldþrot Primera Air hafi gert illt verra. Til að mynda hafi eitt kortafyrirtæki verulega hert sína skilmála gagnvart Wow air. Þá hafi lausafjár- og fjárhagsstaðan versnað á síðustu vikum enda sé fyrsti ársfjórðungur jafna sá þyngsti í flugrekstri.

Gert ráð fyrir 11 milljarða fjárfestingu

Ráðgert er að ef fjárfestingu Indigo Partners í Wow air verði nemi um 90 milljónum dollara, eða sem samsvarar um 11 milljarða króna. Hún verður í formi hlutafjár og láns sem verður framar í kröfuhafaröðinni en skuldabréfin sem Wow gaf út í september.