Skúli Mogensen, forstjóri Wow air, setti aleigu sína í rekstur flugfélagsins. Greinir hann frá þessu í samtali við fréttastofu RÚV . Þegar fréttamaður spurði hversu mikil upphæð þar sé um að ræða, svaraði Skúli því að hann sé ekki með neina tölu á því eða verið að velta því mikið fyrir sér.

Eins og greint hefur verið frá í dag þá hefur Wow air hætt starfsemi vegna rekstrarerfiðleika.

Að sögn Skúla eru einhverjar eignir eftir í félaginu, en hann kveðst þó ekki vera með á hreinu hversu miklar þær eignir séu.

Þá sagði Skúli, spurður um hvort það kæmi til greina að byrja upp á nýtt, að hann myndi alla daga vinna aftur með starfsfólki sínu hjá Wow, fengi hann tækifæri til þess. Hann kveðst þakklátur fyrir mikinn stuðning starfsmanna sinna sem hann fann fyrir á fundi með þeim í morgun.

Segist vera í sjokki

Skúli segist spurður um líðan sína á þessari stundu, að hann telji sig ekki vera almennilega vera búinn að átta sig á þessu. Hann sé ennþá í sjokki og að hann sé búinn að vera vakandi nánast allan sólarhringinn síðastliðna viku.

Skúli kveðst loks ekki vera búinn að gefast upp. Þessu verki sé þó því miður lokið og að hann óski þess innilega að öðruvísi hefði farið.