Fjárfestingarfélagið Títan tapaði 633 milljónum króna á árinu 2014.

Tapið er 198 milljónum meira en árið á undan, þegar það nam 435 milljónum króna. Skúli Mogensen er eini eigandi Títan fjárfestingarfélags.

Títan er móðurfélag flugfélagsins WOW air og fer með 100% hlut í því, en tap WOW á árinu 2014 nam 560 milljónum króna. Árið áður, 2013, hafði félagið þá tapað 332 milljónum króna. Á þessum tveimur árum tapaði félagið því sem um nemur 892 milljónum króna.

Þá nam eigið fé Títan 432 milljónum króna árið 2014, sem er lækkun um 909 milljónir frá árinu á undan þegar eigið fé eignarhaldsfélagsins nam 1.341 milljón króna.

Taprekstur vegna ókláraðra áætlana

Taprekstur WOW er skýrður í ársreikningi félagsins 2014. Í honum segir að undirbúningskostnaður vegna áforma um flug til Bandaríkjanna og til nýrra áfangastaða í Evrópu sem félagið þurfti svo að falla frá hefði kostað drjúgan skilding.

Skúli Mogensen er eini eigandi Títan fjárfestingarfélags, sem fer eins og fyrr sagði með 100% hlut í WOW air. Títan fer einnig með 100% hlut í félaginu TXK ehf., auk þess sem það fer með 60% hlut í Cargo Express ehf.

Þá á félagið einnig 24,4% hlut í CAOZ hf., sem er íslenskt þrívíddarteiknimyndastúdíó, auk 13,25% hlutdeildar í Carbon Recycling International, sem er orkuframleiðslufyrirtæki.