„Ég get séð fyrir mér þann dag sem við borgum þér fyrir að fljúga,“ segir Skúli Mogensen forstjóri og stofnandi Wow air í viðtali við bandarísku viðskiptasíðuna Business Insider. Skúli var spurður að því hversu lág fargjöld flugfélög gætu komist upp með.

Í fréttinni er útskýrt að í fjöldamörg ár hafi flugfélög unnið hörðum höndum að því marki að auka fjölbreytni tekjulinda sinna, það er að fá peninga frá öðrum stöðum en bara á sölu flugferða. Tekjur flugfélagsins hafa aftur á móti komið frá hlutum á borð við: Sætisval, máltíðir um borð og svo framvegis. Enn fremur hafa flugfélög gert samstarfssamninga við bílaleigur, veitingastaði, hótel og aðra ferðaþjónustuaðila og hagnast mikið af því.

Aukakostnaðurinn nái fram úr hefðbundnum kostnaði

Markmiðið, að sögn Skúla er að viðbótarkostnaðurinn verði hærri en kostnaðurinn fyrir flugmiðann sjálfan. Hann segir að fyrsta flugfélagið sem nái því markmiði muni breyta leiknum. Skúli vill einnig byggja nánara persónulegt samband við kúnnann, sem byggir á fyrri kröfum þeirra og þörfum.

Wow air hefur enn fremur fetað nýjar slóðir og skoði leiðir til að umbuna viðskiptavinum sínum fjárhagslega, til að mynda með greiðslum til farþega sem auglýsa fyrirtækið í gegnum samfélagsmiðla. „Samfélagsmiðlar og ný tækni bjóða upp á mörg ný tækifæri. „Fólk tekur talsvert magn af myndum á ferðum sínum og deilir með öðrum upplitunum. Við sjáum okkur leik á borði með því að umbuna þessa aðila fjárhagslega,“ segir Skúli að lokum.