Kauptilboð sem barst Skútustaðahreppi í 5,9% hlut sveitarfélagsins í Jarðböðunum við Mývatn og sveitarfélagið ákvað að samþykkja í vor, reyndist vera 27% hærra en verðmat sem sveitarstjórnin lét Íslandsbanka gera á hlutunum. Tilboðið var einnig 57% hærra en verðmat sem stjórn baðstaðarins lét KPMG gera fyrir sig. Frá þessu greinir Markaðurinn .

Á fundi sínum fyrr í þessum mánuði lýsti sveitarstjórnin yfir ánægju sinni yfir því hversu vel tókst til með söluferlið. Alls seldi sveitarfélagið hlutinn fyrir 263,7 milljónir króna.

Hreinn söluhagnaður Skútustaðahrepps vegna sölunnar voru 195 milljónir króna. Sveitarfélagið hyggst meðal annars ráðstafa hagnaðinum til niðurgreiðslu skulda, gatnagerðar- og viðhaldsframkvæmda og undirbúnings að byggingu sundlaugar.