Bæði Finnur Oddsson, forstjóri Nýherja, og Ágúst Einarsson, framkvæmdastjóri Tempo, horfa björtum augum til vaxtatækifæra Tempo með þeim möguleikum til stækkunar sem fylgja því að vera á skýjagrunni Amazon. „Þessar breytingar núna eru forsenda fyrir því að við getum gert vöruna aðgengilega í öðrum kerfum, sem virka svipað og Atlassian-kerfin,“ segir Finnur.

Ágúst segir að þegar yfirfærslan verði kláruð þá geti fyrirtækið sett allan kraft sinn í að samhæfa Tempo-lausnirnar öðrum grunnum. „Slack er heitasti samstarfsgrunnurinn í dag, og erum við í beta prógrammi þar, og svo reiknum við með að geta tengst Trello, sem Atlassian eignaðist nýlega, á fjórða ársfjórðungi ársins.“

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um, þá hefur Gullkálfur Nýherja, dótturfélagið Tempo, hefur fengið á sig gagnrýni notenda í kjölfar uppfærslu á skýjalausn félagsins. Stjórnendur fyrirtækisins segja að verið sé að leysa vandann og að breytingin feli í sér enn frekari vaxtatækifæri.

Segir hlutfall kvartana lágt

Finnur vill meina að óánægjan sé meðal lítils hóps viðskiptavina, og margir séu ánægðir með breytingarnar. „Við erum með vöru sem virkar gríðarlega vel, og þó ég vilji ekki gera lítið úr þeim hnökrum sem koma upp í svona yfirfærslu milli kerfa, sem alltaf gerist, þá verður varan miklu betri við breytinguna,“ segir Finnur.

„Það hafa komið upp vandamál hjá nokkrum af viðskiptavinum okkar, en þeir sem skrifa umsagnir eru oft þeir sem hafa sterkustu skoðanirnar á málinu. Frá því í febrúar höfum við verið að flytja um 10 þúsund viðskiptavini, ætli það séu ekki um sjö þúsund þeirra virkir, svo að fá eina eða tvær neikvæðar umsagnir á dag, sýnir að hlutfall þeirra sem eru að lenda í vandræðum er ekki verulegt. Þessu hefur fylgt þónokkuð álag en það var ekki óvænt og vinnum við að lausn á vanda þeirra á nánast einstaklingsgrunni.“

Sumir gagnrýna einnig að ákveðið var að gera breytingu á viðmóti forritsins á sama tíma og jafn mikilvæg breyting á bakvinnslunni var gerð. Aðrir gagnrýnendur hafa gengið svo langt að saka fyrirtækið um að reyna að fá viðskiptavini til að greiða meira með breytingunni, því sumir möguleikarnir hefðu verið færðir úr einni áskriftarleið yfir í aðra viðbótaráskriftarleið.

Ágúst Einarsson, framkvæmdastjóri Tempo, segir að sumir þættir hafi verið færðir til því þeir passi betur þar en hann segir viðmótið ráðast að hluta til af Jira-grunninum sem þeir hafi ekki stjórn á.

„Svo eru einhverjir sem hafa skrifað sína eigin viðbætur við okkar vöru, sem virka ekki beint á nýja grunninum, og eru sumar umsagnirnar af því tagi. Við þurftum að leggja áherslu á lykilverkefnin til að byrja með, en svo eru ýmis atriði sem ekki fylgdu með í upphafi yfirfærslunnar, sem eru að koma,“ segir Ágúst sem játar því að sumum viðskiptavinum hafi verið boðinn afsláttur tímabundið.

„Sumt af þessu er vegna takmarkana á grundvelli forritsins sem við fengum frá Atlassian, svo við gætum þurft meiri tíma til að leysa sum málin, en við erum að vinna í nánu samstarfi við okkar viðskiptavini í að endurhanna ýmsa möguleika sem þeir sakna úr gömlu vörunni.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .