Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins óttast að ef opinberir starfsmenn knýi fram miklar launahækkanir nú þegar kjarasamningar við flest félög þeirra eru laus muni allt fara í bál og brand á vinnumarkaði.

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í morgun fer Félag íslenskra náttúrufræðinga fram á a.m.k. nálega þriðjungslaunahækkun í sínum kjaraviðræðum við ríkið, jafnvel meira vegna ákvarðana Kjararáðs.

„Það sem veldur mér áhyggjum að stórir hópar opinberra starfsmanna eru með lausa samninga núna eða eru við það að losna á næstu mánuðum,“ segir Halldór í samtal við RÚV , en auk náttúrufræðinga rennur út friðarskylda framhaldsskólakennara út um mánaðarmótin, nokkrum dögum eftir kosningar, en kjarasamningar við þá eru einnig lausir.

„Kjaraviðræður við opinbera starfsmenn hafa oft skilað sér í meiri hækkunum en innstæða hefur verið fyrir og það sem ég óttast ef samninganefndir ríkis og sveitarfélaga standa ekki í lappirnar þá munu þessar kröfur hellast yfir almenna markaðinn í byrjun næsta árs sem væri mjög slæm staða í mínum huga.“

Á almenna markaðnum eru ákvæði í kjarasamningum að ef aðrir hópar hækka umfram þann almenna sé hægt að fara fram á sambærilegar hækkanir ellegar segja upp samningunum.

„Ég vona að sjálfsögðu og trúi að til þess muni ekki koma enda væri það  sannarlega slæm niðurstaða fyrir alla Íslendinga að hleypa öllu í bál og brand á vinnumarkaði.“