*

þriðjudagur, 13. nóvember 2018
Innlent 27. desember 2010 16:15

Sláturfélag Suðurlands í fjárhagslega endurskipulagningu

SS skuldar 3,4 milljarða króna og þorri þeirra skulda er við Arion banka.

Ritstjórn

Sláturfélag Suðurlands (SS) hefur gert samkomulag við Arion banka um að hefja fjárhagslega endurskipulagningu félagins í janúar næstkomandi. Endurskipulagningunni á að vera lokið fyrir 30. júní 2011. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

SS-samstæðan skuldaði 3.433 milljónir króna um mitt þetta ár og er þorri þeirra skulda við Arion banka. Fjárhagsstaða félagsins veiktist mikið við bankahrunið og hrun íslensku krónunnar þar sem skuldir þess eru að stærstum hluta í erlendri mynt. Í tilkynningunni kemur fram að öll lán SS séu í skilum.

Endurskipulagningin á að leiða til þess að lán SS hjá Arion banka verði endurfjármögnuð og aðlöguð „betur að greiðslugetu félagsins til lengri tíma,“ líkt og segir í tilkynningunni. Hún á ekki að hafa nein áhrif á skuldir við aðra lánadrottna SS en Arion banka.