Slagsmál hafa brotist út í Missouri og Alabama fylkjum Bandaríkjanna í dag, föstudaginn eftir Þakkargjörðarhátíðina sem alla jafna hefur verið kallaður „Black Friday“ á ensku en mætti útleggja sem föstudagur til fjár á móðurmálinu. Neytendur hafa í dag flykkst í verslunarleiðangra til þess að freista þess að ná að kaupa vörur á miklum afsláttum.

Í Columbia verslunarmiðstöðinni í Missouri varð einn fyrir skoti á bílastæði en óvíst er um hvort um slys hafi verið að ræða eða ásetning. Þá lokaði Riverchase Galleria verslunarmiðstöðin 40 mínútum fyrr en ráðgert hafði verið vegna þess að slagsmál höfðu brotist út.

Fyrir marga smásala getur tímabilið á milli Þakkargjörðarhátíðarinnar og Jóla verið ráðandi þáttur um hvort reksturinn sé jákvæður eða neikvæður fyrir árið en sala á þessu tímabili getur verið allt að 40% af heildarsölu ársins.

Fyrir utan fyrrnefnd tilvik hefur þó verið heldur til hægt í verslunum í dag þar sem sífellt stærri hluti hennar færist yfir á netið.